154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

kynhlutleysi í íslensku máli.

[15:08]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir mjög áhugaverða spurningu um þróun tungumálsins. Fyrst vil ég segja að þetta er ekki einhver stefna eða lína sem ráðuneytið hefur lagt heldur er þetta sjálfsprottið hjá Ríkisútvarpinu. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt varðandi málfræðigrunninn okkar og hvernig við nálgumst tungumálið að það sé skýrt og það sé einfalt. Ég verð að segja það og vera persónuleg hér að ég hef talsverðar áhyggjur af því ef það eru mismunandi skilaboð um það hvernig beygingar og hvernig þetta er allt að þróast, það geti leitt til þess að þetta verði enn erfiðara fyrir til að mynda fólk af erlendum uppruna eða þá sem eiga í erfiðleikum með að tileinka sér tungumálið, það verði flóknara. Ég veit að þetta er mál sem margir hafa skoðun á og mér finnst það ánægjulegt vegna þess að okkur á að þykja vænt um tungumálið og við eigum að hafa á því skoðanir. Vegna þess þá langar mig bara skoða þetta mál betur, vegna þess að þetta skiptir máli. Ég er nýkomin úr ferð þar sem við vorum að ræða máltækni og gervigreind og það er svo að vegna þess að við höfum lagt svo hart að okkur við að setja allt tungumálið okkar inn í stafræn gögn þá er hægt að keyra íslenskuna í gegnum þessa gervigreind, annars ekki. Þannig að við erum búin að kosta miklu til og það skiptir máli og þá finnst mér mjög brýnt að þau sem eru að aðlaga sig tungumálinu okkar fái skýr skilaboð um hvernig þessu öllu er háttað.